top of page

Hafdís og Silja valdar til að keppa á EM


HRÍ hefur gefið út hverjir það verða sem keppa fyrir hönd Íslands í götuhjólreiðum á Evrópumótinu í september. Þær Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir hafa verið valdar til að keppa á mótinu, sem verður haldið í Trentino héraði á Ítalíu dagana 8.-12. september. Hafdís mun keppa í tveimur greinum, tímatöku og hefðbundinni götuhjólakeppni og Silja verður með henni í götuhjólakeppninni. Hafdís fór á HM síðasta haust og nældi sér þar í dýrmæta reynslu, sem mun án efa koma henni til góða nú. Silja kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í A-flokk kvenna í götuhjólamótum sumarsins, þá sérstaklega þegar hún gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í sinni fyrstu tilraun. Báðar fóru þær til Svíþjóðar í júlí með HRÍ og kepptu í PostNord U6 Cycle Tour með góðum árangri.


Götuhjólakeppnin í kvennaflokki verður nokkuð frábrugðin því sem þekkist hér á landi, því hjólaðir verða 8 hringir í 13,2 kílómetra langri braut í borginni Trento. Í hverjum hring er 250m hækkun. Í tímatökunni verður svo farinn 22 kílómetra langur hringur með nokkrum kröppum beygjum. Smelltu hér til að skoða heimasíðu mótsins. HFA óskar þeim Hafdísi og Silju innilega til hamingju með að hafa komist í landsliðshópinn og óskar þeim góðs gengis á Ítalíu! Smelltu hér til að lesa frétt HRÍ um landsliðsvalið.

Comments


bottom of page